Wednesday, July 18, 2007

Jæja kæru vinir. Þá fer að líða að ferðalokum.
16. júlí fórum við í fallegan lítinn bæ, sem heitir Valle d'Angeles og er mjög vinsæll fyrir hin ýmsu handverk íbúanna og mikið af litlum sætum búðum. Við keyptum ýmislegt, sem okkur fannst gaman að geta komið með heim og fórum um litlar sætar götur. Yndislegt veður og gaman að setjast niður og horfa á götulífið. Það voru margir túristar, aðallega ameríkanar.

Í dag 18. júlí fórum við í morgunmat með vinkonu Nördu, sem hefur mikinn áhuga á að vita allt um hagi Pablos og sagði okkur ótrúlegar sögur um spillinguna hérna. Hún talaði mikið um, hversu ánægð hún væri yfir, að Pablo væri að ala upp sína fjölskyldu á Íslandi og er ég ekki hissa, þegar maður er búinn að kynnast hinum ýmsu erfiðleikum hjá fólki. Það virðist ekki vera hægt að treysta neinum. Hún stefnir á að flytjast burt til Evrópu og vonandi kemur hún í heimsókn til Íslands.
Síðan fórum við í kirkjugarðinn með mikið af fallegum blómum, sem við lögðum á leiði Nördu. Yndisleg stund, sérstaklega þegar litla E.Narda talaði svo fallega til ömmu sinnar. Hún hafði nefnilega séð stein, sem hana langaði svo til að taka af leiðinu og henda í brunninn. Sagði hún "elsku amma Narda, má ég taka steininn og henda honum í brunninn"? ´Svo fallegt. Við fengum öll tár í augun.

Fyrir mig hefur þetta verið eftirminnilegt að kynnast fjölskyldu Pablos og sjá hversu samhent hún er og gott fólk. Hann er mikils metinn og allir stoltir af, hversu vel honum gengur og hvað hann hefur verið duglegur að tala alltaf við E. Nördu spænsku. Hún er alveg farin að tala og heillar alla með sínu fallega brosi og söng. Það er ekki aðvelt að vera bara ein með okkur allan þenna tíma. Enginn róló. Enginn húsdýragarður. Engin tjörn með bra, bra. Engin sundlaug með rennibraut. Samt hefur þetta gengið ótrúlega vel.

Nú erum við farin að telja dagana og hlökkum til að koma heim til Íslands. Þetta hefur verið ógleymanleg ferð og mikil lífsreynsla að sjá hvernig lífið í Honduras er og hversu heppin við erum að búa á Íslandi. Það er svo margt, sem okkur finnst sjálfsagt, sem er algjör lúxus hér og ekki auðvelt að fá.

Við skrúfum ekki frá krana og fáum eins mikið heitt vatn og við viljum.
Vöskum upp úr köldu vatni ?? Þvoum þvottinn uppúr köldu vatni ??
Bannað að setja pappír í klósettið. (það er að vísu á mörgum stöðum)
Mikið af flugum og pöddum út um allt, sem maður er eiginlega hættur að sjá.
Alls konar hljóð, sem maður þekkir ekki. Ótrúlega mikið af hundagelti og væli.
Maður fer ekki í göngutúr einn eða skreppur í bæinn.
Maður stoppar ekki bíl án þess að vera með allar hurðir læstar.
Húsið og gluggar er allt afgirt með járngrindverkum og rækilega læst.
Og svo margt og margt, sem maður gæti talið upp, sem okkur finnst sjálfsagðir hlutir heima.

Ég vona að þið hafið haft gaman af að fylgjast með okkur og upplifa svolítið lífið hérna.
En, en, ósköp hafið þið verið löt að skrifa "comment", til að leyfa okkur að heyra frá ykkur, sic.

Ég læt þetta nægja og hlakka til að sjá ykkur.

Saludos,
Lella og litla Santos fjölskyldan.

















4 comments:

Margrét said...

Lella mín ég hef ekki verið löt að skrifa komment. Les af áfergju fréttirnar af ykkur. Nú er byrjað að rigna hér, velþegið enda ekki komið dropi úr lofti síðan áður en þið fórum.
Hlakka til að sjá ykkur
Saludos y besos
Margrét

Eva said...

Já, þetta er svo sannarlega önnur menning og önnur lífsskilyrði að búa við. Við höfum það ótrúlega gott en gleymum því oft, því miður..
nú styttist í ykkur
knús
Eva og Saga

Anonymous said...

Það hefur verið gaman að fylgjast með ferðinni ykkar, gott að flest hefur gengið vel..
Hlökkum til að fá að sjá ykkur
Góða ferð heim
sonja og co

Anonymous said...

Vá þvílíkt ævintýri hjá ykkur.. gaman að skoða myndirnar - á eftir að lesa betur bloggið og sjá hvað þið eruð búin að vera að blogga.

Góða ferð heim

Kiss kiss,
Inga Birna og lítill bumburass