Friday, July 13, 2007

Roatán og fleira

Hola elskurnar! Þá er kominn tími á að skrifa ykkur framhald af ferðasögunni.
7. júlí (45 ára brúðkaupsdagur okkar hjóna ) Fórum í ferð til Santa Lucia, fallegur lítill bær í 30 mín. fjarlægð, sem liggur í hæð með fögru útsýni. Við gengum um í fallegu veðri og skoðuðum það, sem var helst að sjá. Lítið fallegt vatn með öndum og skjaldbökum og lítill veitingastaður, þar sem við fengum okkur hressingu. Sáum fallega kirkju, þar sem verið var að undirbúa brúðkaup. Falleg skreyting hafði verið sett upp með satíntjöldum við altarið og fallegum blómaskreytingum meðfram bekkjunum. Þessi kirkja er mjög vinsæl á meðal ríka fólksins að láta gifta sig. Héldum heim í góða veðrinu og fórum síðan um kvöldið á Paella stað, þar sem við fengum svo stórar paellur að við gátum ekki borðað nema helminginn. Góður dagur og fórum að pakka fyrir ferðalagið langa daginn eftir.

8. júlí Lögðum af stað í ferðalagið kl. 9.00 Voða fínt rúgbrauð, sem Pablo hafði tekið á leigu til að taka okkur öll 9 manns (frændfólk Pablos kom líka með) áleiðis til San Pedro, þar sem pabbi Pablos býr. Hitinn var ansi mikill og gott að vera í loftkældum bíl. Umferðin var ansi mikil og ferðin gekk frekar seint. Mikið af beygjum á leiðinni og frekar óþægilegt, enda fór litla Elísabet Narda að kasta upp (fyrsta skiptið á ævinni) Frekar erfitt, þar sem enginn hafði tekið með sér gubbupoka og ekki hægt að stoppa á miðri hraðbraut. Loksins gátum við stoppað og þá þurfti að þrífa bílinn, því ansi mikið hafði komið uppúr litlu elskunni. Hún var samt ótrúlega dugleg og fór ekkert að gráta. Hresstist bara öll, eftir að hafa losað sig við allt, sem hægt var. Stoppuðum á leiðinni, til að fara á snyrtingu, en hitinn var mikill og gott að koma í kældann bílinn. En allt í einu fór hún að æpa og öskra og við skildum ekkert í, hvað væri í gangi. Jú, það höfðu komið nokkrar flugur inní bílinn og mín kona var svo hrædd, að ég hef aldrei séð annað eins. Hún hélt í mig eins fast og hún gat og æpti og æpti. Okkur fannst þetta bara hlægilegt og reyndum af öllum mætti að losa okkur við flugurnar. Það tókst loksins og allt datt í dunalogn. Hjúkk, ég var í svo mikilli klemmu að mjöðmin fór öll úr skorðum....
Komum til San Pedro kl. 14.00 og fórum á hótelið, sem var búið að panta. Mjög flott 5 stjörnu og æðislegt að fara í sund og komast i gott bað. Ég naut þess svo sannarlega.
Um kvöldið fórum í mat til pabba Pablos. Vel tekið á móti okkur og fínn matur. Þeir feðgar höfðu ekki sést í 3 ár og hann hafði aldrei séð Elísabetu Nördu, þannig að þetta var mjög tilfinningaleg stund. Litla stóð sig svo vel og lék á alls oddi. Við vorum leist út með gjöfum og miklum faðmlögum og E.N faðmaði og kyssti afa sinn svo fallega. Hann stóð við hliðið og veifaði okkur og eflaust hafa tár runnið niður kinnar hans. Yndislegt kvöld.

9. júlí. Fengum okkur flottann morgunverð á hótelinu. Veðrið gott og nægur tími til að fara í sund áður en við færum útá völl áleiðis til Roatan. Flugið hófst kl. 14.oo með millilendingu í La Ceba. Biðum þar í klst. og vorum komin til Roatan 17.oo. Tókum leigubíl á ströndina, þar sem við fengum 3 lítil hús, mjög fín. Ég var við hliðina á P. og A, sem var mjög þægilegt. Frænka og frændi Pablos voru rétt hjá. Lítill veitingastaður beint fyrir fram, þar sem við fengum okkur að borða. Ágætt, en frekar sein afgreiðsla. Við vorum hvort sem er ekkert í stuði til að fara neitt langt. Yndislegt kvöld, stjörnubjart og fallegt að horfa útá ströndina.

10. Fengum okkur morgunmat á litla veitingarstaðnum og fórum síðan á ströndina. E.N. var alveg í mínus og þóttist ekkert vilja fara í sjóinn (við sem héldum að hún myndi hlaupa í sjóinn). Algjör mús. Mér finnst þetta bara þroskamerki. Hún er algjörlega ókunnug að fara í sund í svona stórri sundlaug. Smátt og smátt fór hún að fara lengra og lengra og síðan var hún farin að fara alveg og voða dugleg. Hitinn var 30 gráður og gott að sitja í skugganum. Fékk frábært nudd og ströndinni og lét mér líða vel. Fórum í bæinn, sem er 15 mín. akstur frá og fórum á góðan veitingarstað. Fengum fínan mat. Gott að slaka á eftir sólina og hitann.

11. Fórum í morgunmat á hótel rétt hjá. Mjög fallegur staður með stórum garði, með margs konar sundlaugum um allt. Fórum í hlaðborð, sem var frekar lélegt, miðað við önnur. Fórum siðan í bæinn þar sem ég þurfti að fara í banka. Einn banki á staðnum. Þurfti að fá dollara og lempírur. Það tók yfir 45 mín. Aldrei séð önnur eins vinnubrögð. Myndi ekki ganga heima.
Ströndin beið eftir okkur og E.N. hljóp núna beint útí eins og ekkert.
Ítalskur veitingastaður um kvöldið og E.N. söng og söng á spænsku fyrir gesti.

12. Ansi heitt. Fórum allar konurnar í nudd, sem var frábært í skugganum. Nuddkonan var orðin mikil vinkona okkar og vandaði sig við nuddið. Fórum í bátsferð um daginn, þar sem við sáum höfrungasýningu við mikinn fögnuð E.N. Ferðin tók 2 tíma og var alveg nóg, þar sem báturinn var frekar hæggengur. Fengum okkur göngutúr á ströndinni í myrkrinu, sem er skrýtin tilfinning, þar sem við höfðum aðeins birtu frá stjörnunum og þurftum að passa okkur á kröbbunum, sem voru að hlaupa um allt. E.N. fannst þetta mjög skemmtilegt.

13. Þá var dvöl okkar á Roatan lokið og góðar minningar um þessa fallegu eyju er í hugum okkar. Þá tekur við vika í Tegus, sem verður sjálfsagt skemmtileg, en öðruvísi.
Læt þetta duga.
Saludos frá Honduras































3 comments:

Anonymous said...

Takk elsku Lella fyrir skemmtileg skrif og myndir. Vona að mjöðmin sé í fínu formi. Kærar kveðjur á ykkur öll og góða rest.

Anonymous said...

En hvað það er gaman að lesa ferðasögur og fá að sjá myndir. ekkert smá gaman hjá ykkur.

Gangi ykkur vel,
Knus Arndís

Anonymous said...

oh, hvað þetta er magnað allt saman, þvílík ferð!!!
knús og sakna ykkar
Eva og co